Upplýsingar

Um áhættu

Fjárfesting í hlutdeildarskírteinum sjóða um sameiginlega fjárfestingu er að jafnaði öruggari en þegar keypt eru einstök verðbréf þar sem sjóðir dreifa áhættu fjárfesta með kaupum á fleiri en einum flokki verðbréfa. Verðbréfaviðskipti geta þó verið áhættusöm og kann ávöxtun verðbréfa að sveiflast mjög frá einum tíma til annars. Verðmæti hlutdeildarskírteina getur því rýrnað.

Áhætta tengd verðbréfum og innlánum

Margvísleg atriði geta valdið verðlækkun á verðbréfum og þar með á gengi hlutdeildarskírteina í sjóðnum, s.s. ófyrirséðir atburðir og almennt efnahagsástand. Ný eða breytt löggjöf Alþingis getur einnig haft áhrif á gengi hlutdeildarskírteina. Seljanleikaáhætta getur birst með þeim hætti að markaðurinn geti ekki tekið við því magni sem til stendur að selja þar sem kaupendur vantar, og einnig getur verðmyndun oft verið með þeim hætti að verulegur munur er á kaup- og sölugengi og því næst ekki sá árangur við sölu sem vænst hafði verið. Minni áhætta er almennt talin fólgin í dreifðara eignasafni. Með vel dreifðu safni er átt við þegar verðbréf í safni eru ekki að miklu leyti frá sama útgefanda né að útgefendur séu í sömu atvinnugrein eða rekstri. Sú staða getur komið upp að sjóðurinn getur ekki dregið á innlán sín hjá fjármálastofnun vegna lausafjárvanda fjármálastofnunarinnar og þannig valdið sjóðnum sjálfum lausafjárvandræðum sem getur komið niður á gengi hlutdeildarskírteina. Gengi hlutdeildaskírteina getur lækkað komi til greiðslufalls verðbréfa eða innlána til dæmis ef mótaðili getur ekki greitt vexti eða höfuðstól af útgefnum verðbréfum eða geti ekki greitt innlán tilbaka. Greiðslufallsáhætta með ábyrgð ríkissjóðs er almennt talin vera lægri en gengur og gerist meðal útgefanda á Íslandi.

Afleiðunotkun

Sjóðir geta haft heimild til að binda fé sitt í afleiðum samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru samkvæmt lögum nr. 108/2011. Viðskipti með afleiður geta dregið úr áhættu sjóða, s.s. endurfjárfestingaráhættu. Viðskiptin geta einnig virkað á svipaðan hátt og stöðutaka í viðkomandi fjármálagerningi og þannig aukið áhættu sjóðsins. Afleiður sjóðs geta verið í formi framvirkra samninga eða vilnana. Í tilviki framvirkra samninga skuldbindur sjóðurinn sig til þess að eiga viðskipti með fjármálagerninga á fyrirfram ákveðnu verði og tíma í framtíðinni. Þannig myndast skuldbinding í sjóðnum vegna þessara framtíðarviðskipta. Verðmæti framvirka samningsins sveiflast svo með breytingu á gengi undirliggjandi eignar og hefur þannig áhrif á innra virði sjóðsins. Í tilviki vilnana kaupir eða selur sjóðurinn rétt til þess að eiga viðskipti með fjármálagerninga á fyrirfram ákveðnu verði og tíma í framtíðinni. Kaupi sjóðir vilnun takmarkast áhætta sjóðsins við það verð sem hann greiddi fyrir vilnunina. Selji hann hins vegar vilnun, fær hann greitt fyrir söluna en skuldbindur sig jafnframt til að eiga viðskipti með undirliggjandi fjármálagerninga skv. skilmálum vilnunarinnar. ALDA Sjóðir hf. mun leitast við að takmarka mótaðilaáhættu í afleiðuviðskiptum, og stefnir að því að gera ISDA samninga við alla mótaðila í afleiðusamningum í þessum tilgangi.

Aðrar áhættur tengdar fjárfestingu í sjóðum

1. Markaðsáhætta vísar til þeirra áhrifa sem hugsanlegar breytingar á gengi fjármálagerninga getur haft á gengi sjóðsins. Fjármálagerningar í eðli sínu sveiflast í verði og getur gengi þeirra bæði hækkað sem og lækkað sem skilar sér í markaðs-áhættu fyrir sjóðsfélaga. Í tilfelli skuldabréfasjóða liggur megin markaðsáhætta sjóða í vaxtaáhættu, þ.e.a.s. þeirri áhættu sem felst í sveiflum vaxta og áhrif þeirra á gengi undirliggjandi verðbréfa. Áhrif sveiflna í vöxtum eru mest hjá þeim verðbréfum sem hafa langan líftíma, en sjóðurinn takmarkar líftíma sinn við 1 ár.
2. Greiðsluáhætta. Þar sem sjóðir eiga, kaupa og selja fjármálagerninga af þriðja aðila er sú hætta fyrir hendi að kaupandi greiði ekki fyrir selda gerninga eða að seljandi afhendi ekki gerninga sem sjóðir hafar keypt.
3. Vörslu- og uppgjörsáhætta. Rekstrarfélag sjóða felur vörslufyrirtæki vörslu allra fjármálagerninga sjóða. Sú áhætta er fyrir hendi að slíkir fjármálagerningar glatist vegna gjaldþrots vörsluaðila, vanrækslu vörsluaðila, misnotkun hans eða svika. Sú hætta er einnig fyrir hendi að mistök eigi sér stað við uppgjör sjóða.
4. Áhætta höfuðstóls. Fjármálagerningar í eðli sínu geta sveiflast í verði og höfuðstóll getur því rýrnað yfir skemmri eða lengri tíma vegna sveiflna á þeim verðbréfum sem sjóður er fjárfestur í á hverjum tíma.
5. Ytri ástæður á borð við stríð, hryðjuverk og stjórnmálalegan óstöðugleika eða annað því tengt geta haft áhrif á gengi fjármálagerninga og telst því áhættuþáttur fyrir sjóðsfélaga.
6. Greiðslufallsáhætta. Greiðslufallsáhætta á við m.a. um innlán og vísar til þeirra áhættu að viðtakandi innlánsins geti ekki greitt innlánið tilbaka. Greiðslufallsáhætta á einnig við um skuldabréf með ábyrgð íslenska ríkisins, en sú staða gæti komið upp að íslenska ríkið myndi ekki greiða af útgefnum skuldabréfum í ábyrgð þess í samræmi við umsamda skilmála. Greiðslufallsáhætta getur einnig átt við um aðra fjármálagerninga í eigu sjóða.

Ávöxtun sjóða reiknast út frá gengi viðkomandi sjóðs og liggur fyrir í lok tímabils og er háð þróun verðs á fjármálagerningum á tímabilinu.

Hafa ber í huga að ávöxtun í fortíð er ekki vísbending um ávöxtun í framtíð.

Skattlagning

Skattaleg meðferð hlutheildarskírteina í sjóða fer eftir lögum nr. 90/2003, um tekju-skatt, eins og þau eru á hverjum tíma. Af hlutdeildarskírteinum í sjóðnum greiðist fjármagnstekjuskattur. Fjárfestar eru hvattir til þess að kynna sér skattalega stöðu sína og er ráðlagt að leita til sérfróðra aðila á því sviði, s.s. skattalögfræðinga eða endurskoðenda.

Meðferð kvartana og réttarúrræði

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki

Viðskiptavinur getur skotið ágreiningi til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, Höfðatún 2, 105 Reykjavík.Upplýsingar og leiðbeiningar fyrir neytendur eru veittar í síma 520 3700 þriðjudaga kl. 10-11 og fimmtudaga kl. 14-15. Tölvupóstur: urskfjarm@fme.is

Nefndin er vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu, sem tekur við kvörtunum viðskiptamanna og sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu og annast almennt skrifstofuhald fyrir hana. Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um ágreining viðskiptamanna við fjármálafyrirtæki, greiðslustofnanir og fyrirtæki í peninga- og verðmætasendingarþjónustu og dótturfélög þeirra, enda varði ágreiningurinn starfsleyfisskylda starfsemi fjármálafyrirtækisins samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Einnig fjallar nefndin um ágreining um yfirfærslur á milli viðskiptareikninga milli landa í samræmi við ákvæði laga um gjaldeyrismál.

Fylla þarf út sérstakt málskotseyðublað og skila eða senda í pósti til skrifstofu Fjármálaeftirlitins til að óska eftir úrskurði nefndarinnar. Jafnframt má nálgast málsskotseyðublað á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins eða á skrifstofu þess. Nánari upplýsingar um nefndina, málskotsgjald, hverjir geta leitað til nefndarinnar o.fl. er að finna á vef Fjármálaeftirlitsins, fme.is.

Upplýsinga- og leiðbeiningaþjónusta Fjármálaeftirlitsins

Fjármálaeftirlitið starfrækir upplýsinga- og leiðbeiningaþjónustu fyrir viðskiptavini eftirlitsskyldra aðila. Fjármálaeftirlitið veitir viðskiptavinum eftirlitskyldra aðila upplýsingar og leiðbeiningar í síma 520 3700 á þriðjudögum kl. 10-11 og fimmtudögum kl. 14-15. Einnig er hægt að senda tölvupóst á fyrirspurn@fme.is. Sjá nánari upplýsingar um neytendaþjónustu Fjármálaeftirlitsins á fme.is.

Neytendastofa

Neytendastofa er ein þeirra eftirlitsstofnana sem hafa eftirlit með viðskiptalífinu og lögum frá Alþingi sem sett eru vegna öryggis og réttinda neytenda. Á heimasíðu Neytendastofu er m.a. unnt að nálgast upplýsingar um það í hvaða tilvikum og með hvaða hætti neytendur geta leitað til stofnunarinnar, telji þeir að réttur sé á þeim brotinn. Sjá nánar á neytendastofa.is.

Dómstólar

Aðilar geta leitað réttar síns fyrir almennum dómstólum hafi ágreiningsefnið ekki verið undanþegið lögsögu þeirra með lögum eða samningi. Bent er á að Lögmannafélag Íslands býður almenningi ókeypis lögmannsaðstoð. Sjá nánar á vef Lögmannafélags Íslands - LMFÍ.

Lagalegir fyrirvarar

Upplýsingar á þessari heimasíðu Alda Asset Management hf. eru unnar af starfsfólki félagsins. Upplýsingarnar eru veittar í upplýsingaskyni eingöngu en skulu ekki nýttar á þeirri forsendu að um sé að ræða ráðleggingar vegna fjárfestinga í fjármálagerningum eða öðru. Fjárfestar eru eindregið hvattir til að leita ráðlegginga eigin ráðgjafa, s.s. vegna lagalegrar eða skattalegrar stöðu sinnar, áður en nokkurs konar fjárfestingar eru gerðar.

Alda Asset Management hf. vinnur með upplýsingar frá upplýsingaveitum sem félagið telur áreiðanlegar. Alda Asset Management hf. ábyrgist þó ekki áreiðanleika eða nákvæmni slíkra upplýsinganna og ber enga ábyrgð á áreiðanleika upplýsingaveitna sem stuðst er við. Skoðanir eða túlkanir sem fram koma á heimasíðunni eru byggðar á opinberum upplýsingum sem aflað er á þeim tíma sem þær eru skrifaðar og gætu því breyst án fyrirvara. Sérstök athygli er vakin á því að áætlanir og spár geta breyst fyrirvaralaust á jákvæðan og neikvæðan hátt og eru háðar utanaðkomandi óvissu og breytum sem gjarnan eru ekki á valdi Alda Asset Management hf.
Alda Asset Management hf. ábyrgist ekki að gera breytingar á þeim upplýsingum sem birtar eru á heimasíðunni ef forsendur þeirra breytast eða ef í ljós kemur að þær eru rangar eða ónákvæmar.

Hvorki Alda Asset Management hf. né stjórnendur eða starfsmenn félagsins bera ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem hlýst af notkun á vef fyrirtækisins eða upplýsinga sem er að finna á heimasíðu fyrirtækisins eða tjóni sem rekja má til þess að ekki er hægt að nota vefinn, um skemmri eða lengri tíma. Rísi ágreiningur út af upplýsingum sem rekja má til heimasíðu þessarar, skal slíkur ágreiningur leystur samkvæmt íslenskum lögum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Alda Asset Management hf. á allan höfundarétt að upplýsingum á heimasíðunni. Óheimilt er með öllu að dreifa þeim upplýsingum sem finna má heimasíðunni eða nýta þær með öðrum hætti án heimildar Alda Asset Management.

Athygli er vakin á því að símtöl til og frá Alda Asset Management hf. kunna að vera tekin upp samkvæmt heimild í ákvæði 48. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti. Eingöngu verður hlustað á afrit símtala ef nauðsyn ber til og fer Alda Asset Management hf. með upplýsingarnar í samræmi við aðrar upplýsingar er lúta þagnarskyldu (bankaleynd) samkvæmt ákvæðum 58. – 60. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Tilgangur upptöku símtala er að tryggja öryggi viðskiptavina og Alda Asset Management hf. og leiðrétta hugsanlegan misskilning.

Meðferð tölvupósts

Tölvupóstur og viðhengi hans sem starfsfólk Alda Asset Management hf. sendir út fyrir fyrirtækið geta innihaldið trúnaðarupplýsingar og er eingöngu ætlaður þeim sem hann er stílaður á. Óheimil meðferð tölvupósts og viðhengja hans getur varðað skaðabóta- og refsiábyrgð lögum samkvæmt, auk þess sem viðtakanda ber samkvæmt gildandi fjarskiptalögum að tilkynna sendanda hafi tölvupósturinn eða viðhengi hans ranglega borist honum. Vinsamlegast eyðið póstinum og viðhengjunum í slíkum tilvikum. Efni tölvupóstsins og viðhengja er á ábyrgð sendanda ef það tengist ekki starfsemi Alda Asset Management hf.

Breyttur uppgjörstími sjóða í rekstri ALDA Sjóðir hf.

Alda Sjóðir hf. vekur athygli á því að framundan eru breytingar á uppgjörstíma nokkurra sjóða í rekstri félagsins. Breytingarnar taka gildi mánudaginn 6. október 2014.